Símanotkun í Laugalækjarskóla
Það er sameiginleg sýn okkar í skólanum að samvera nemenda á skólatíma skuli einkennast af virkum og jákvæðum samskiptum sem efla þá félagslega. Með það í huga kynnum við nýjar reglur um farsímanotkun á skólatíma. Við köllum reglurnar símafrí.
Símafrí - reglur um farsímanotkun nemenda
Notkun ungmenna á farsímum er ekki endilega andhverfa jákvæðra samskipta. Við erum meðvituð um að stundum er notkun símanna bæði uppbyggileg og skemmtileg. Engu að síður viljum við draga úr skjátíma ungmenna og stuðla að því að þau noti frímínútur í félagsleg samskipti án tækninnar. Mörg eiga eiga erfitt með að takmarka notkun sína á tækjunum. Með símafríi viljum við líka koma í veg fyrir óumbeðnar myndatökur í skólastarfinu.
Nemendum stendur alltaf til boða að hringja úr skólanum, einfaldast er að gera það af skrifstofu skólans. Einnig geta foreldrar náð sambandi við nemendur í gegnum skrifstofu skólans í síma 4117900

Símafríið - útfærslan
Nemendur eru vinsamlegast beðnir um að gefa símunum algert frí á meðan skóladeginum stendur. Foreldrar geta valið um fjórar leiðir til að láta símafríið ganga upp.
- Nemendur skilji símann sinn eftir heima
- Foreldrar stilli síma ungmenna þannig að hann slökkvi á sér á skólatíma. Hér má finna einhverjar leiðbeiningar fyrir Android-stýrikerfi og svo hér fyrir iPhone. Ef við finnum betri leiðbeiningar þá munum við setja þær hér inn.
- Nemendur hafi símann með í skólann en afhendi hann stjórnendum við upphaf skóladags og fái hann aftur við lok skóladags. Hér er mikilvægt að merkja símann með einhverjum hætti.
- Nemendur hafi símann með í skólann en hafi alveg slökkt á honum yfir skóladaginn - geymi hann t.d. í tösku eða skáp.
Við í skólanum hvetjum foreldra eindregið til að velja leið 1. Ef foreldrar telja mikilvægt að síminn fari með nemendum í skólann þá standa kostir 2, 3 og 4 til boða. Á fyrstu vikunum munum við forvitnast um hvaða leið hefur verið farin. Ef foreldrar velja leið 4 - að nemendur símann sjálfir yfir skóladaginn - og einhver misbrestur reynist á því að nemendur virði símafríið, þá verða foreldrar beðnir um að skipta yfir í leið 1, 2 eða 3. Þegar líður á haustönnina verður símafríið tekin til umræðu og útfærslan endurskoðuð ef þurfa þykir. Við vitum að bæði foreldrar og nemendur kunna að hafa fjölbreyttar skoðanir á símafríi en biðjum öll um að fylgja þessari línu.